top of page

Ýmsar leiðbeiningar

ENDURGREIÐSLUR

Á grundvelli laga nr. 110/2016, um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, er unnt að fá endurgreitt 25% af endurgreiðsluhæfum kostnaði sem fellur til við hljóðritun hér á landi. Markmið laganna er að efla tónlistariðnað á Íslandi. Jafnt innlendir sem erlendir aðilar geta sótt um endurgreiðslu. Hafi meira en 80% af framleiðslukostnaði fallið til hérlendis eru jafnframt endurgreidd 25% af þeim framleiðslukostnaði sem fellur til á hinu evrópska efnahagssvæði. Í lögunum er skilgreint hvað sé endurgreiðsluhæfur kostnaður og hver séu skilyrði endurgreiðslu fyrir útgáfu hljóðrita.Umsókn um endurgreiðslu vegna hljóðritunar á tónlist

Umsókn um endurgreiðslu hluta kostnaðar sem fellur til við hljóðritun hér á landi skal berast ráðuneytinu ásamt fylgigögnum í síðasta lagi sex mánuðum eftir útgáfu nýjasta hljóðritsins sem sótt er um endurgreiðslu vegna.

https://www.stjornarradid.is/verkefni/atvinnuvegir/skapandi-greinar/endurgreidslur-vegna-hljodritunar-a-tonlist/

Sérstök fjögurra manna nefnd fer yfir umsóknir og gerir tillögur til ráðherra um afgreiðslu. Ráðherra skipar nefndina og skulu tveir vera tilnefndir af Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda, þ.e. einn úr röðum flytjenda og einn úr röðum hljómplötuframleiðenda, einn tilnefndur af STEF og einn skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður. Varamenn skal skipa á sama hátt. Atkvæði formanns ræður úrslitum falli atkvæði jöfn.

Við mat á umsóknum um endurgreiðslu getur nefndin aflað álits sérfróðra aðila um hvort skilyrði 5. gr. laganna séu uppfyllt.

Hlutfall endurgreiðslu skal vera 25% af endurgreiðsluhæfum kostnaði sem fellur til við hljóðritun. Sami útgefandi getur ekki fengið hærri endurgreiðslu en 30.000.000 kr. á þriggja ára tímabili.

Hafi umsækjandi hlotið styrk frá opinberum aðilum til útgáfu sömu hljóðrita dregst styrkurinn frá þeirri upphæð sem telst innlendur endurgreiðsluhæfur kostnaður.
 

Leiðbeiningar fyrir umsókn um endurgreiðslu á hluta kostnaðar vegna hljóðritunar tónlistar á Íslandi. 

Umsóknir um endurgreiðslur þurfa að uppfylla skilyrði sem gerð eru í lögum nr. 110/2016, um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, og reglugerð nr. 1271/2016 um endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist. 

Umsóknum skal alla jafna skila rafrænt á postur@anr.is og hægt er að styðjast við umsóknareyðublað sem finna má á vef ráðuneytisins. 

Sé ekki viðkomið að skila umsóknum rafrænt, eða öllum gögnum rafrænt, er hægt að senda umsóknir í öðru formi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. 

Í umsókn um endurgreiðslu skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram: 

1. Útgefandi a. Upplýsingar um útgefanda / umsækjanda i. Lögheimili ii. Borg og póstnúmer iii. Land iv. Símanúmer v. Netfang b. Upplýsingar um hvort útgefandi hafi fengið endurgreiðslu vegna hljóðritunar á tónlist á síðustu þremur árum og þá hver sú upphæð var. Upplýsingar um bankareikning sem endurgreiðslan skal greiðast inn á. 

2. Upplýsingar um skuldleysi við STEF og innheimtumann ríkissjóðs a. Sönnun þess að útgefandi eigi ekki vangoldnar opinberar kröfur (yfirlýsing tollstjóra eða frá sýslumanni). b. Yfirlýsing um að aðili sé skuldlaus við STEF eða önnur systurfélög vegna útgáfunnar Ath. á umsóknareyðublaðinu er sá möguleiki að heimila atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að nálgast framangreindar upplýsingar. 

3. Samantekt og yfirlýsing um að hljóðritin falli undir lög nr. 110/2016 a. upplýsingar yfir það hvernig hljóðritin voru gefin út og gerð aðgengileg almenning. b. Yfirlit yfir lög, ISCR- kóða hljóðritanna og tímalengd tónlistar á hljóðritunum, c. Upplýsingar um flytjendur, bæði aðalflytjendur og aðra flytjendur, sem fram koma á hljóðritunum. 

4. Reikningar og kostnaðaryfirlit – endurgreiðsluhæfur kostnaður a. Reikningur frá hljóðveri. Skilyrði er að reikningurinn sé löglega gefinn út og einnig þarf að skila inn sönnun fyrir greiðslu. b. Reikningur fyrir greiddum launum aðkeyptra flytjenda eða tæknimanna og einnig skal skila inn sönnun fyrir greiðslu. i. Æskilegt er að hægt sé að sýna fram á að greitt hafi verið eftir taxta um hljóðversvinnu hljóðfæraleikara http://fih.is/kjaramal-og-taxtar/felaghljomplotu-framleidenda-fhf-v-upptoku/. c. Reikningur fyrir eftirvinnslu og einnig skal skila inn sönnun fyrir greiðslu. d. Reikningar fyrir ferða og flutningskostnaði hljóðfæra og aðalflytjenda og einnig skal skila inn sönnun fyrir greiðslu. i. Undir ferðakostnað falla fargjöld milli landa og landshluta samkvæmt farseðlum. Ekki er endurgreiddur hluti af ferðakostnaði innanbæjar. Gistikostnaður, reikningur frá hóteli, gistiheimili eða heimagistingu. ii. Undir flutningskostnað fellur flutningur á hljóðfærum sem þurfa sértæka flutninga, svo sem píanó eða flygill. e. Reikningur fyrir eigin vinnu ef það á við sbr. 7. gr. laga nr. 116/2016, eða því sem samsvarar listamannalaunum fyrir einn aðila í mánuð sbr. lög nr. 57/2009, um listamannalaun, sem eru 370.656 kr. á árinu 2017. Laun þessi skulu gefin upp til skatts en heimilt er að skrá þau sem verktakalaun og færa kostnað á móti. Nefnd sem skipuð er skv. 4. gr. laga nr. 110/2016 fer yfir innkomnar umsóknir sem skulu vera í samræmi við leiðbeiningar þessar. Telji nefndin að upphæð endurgreiðsluhæfs kostnaður sé í ósamræmi við þau hljóðrit sem sótt er um endurgreiðslu fyrir, getur nefndin aflað álits sérfróðra aðila sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 110/2016. Sé niðurstaðan sú að endurgreiðsluhæfur kostnaður sé of hár miðað við þau hljóðrit sem sótt er um endurgreiðslu fyrir getur nefndin gert tilllögu til ráðherra um að endurgreiða lægri fjárhæð en sótt er um.

5. Aðrir opinberir styrkir Ef útgefandi hefur hlotið styrk frá opinberum aðila vegna útgáfu sömu hljóðrita ber að upplýsa um styrkinn og upphæð hans. Athuga ber að styrknum gæti hafa verið ætlað að ná yfir fleiri þætti en endurgreiðsluhæfur kostnaður, skv. 6. gr. laga nr. 110/2016, sem kann að hafa áhrif á frádrátt vegna umsóknar. Mikilvægt er því að fram koma fullnægjandi upplýsingar um veitta styrki svo nefndin geti metið hve mikill hluti veitt styrks ætti að koma til frádráttar endurgreiðslunnar.
 

Tónlistarveitur

Það er mikilvægt fyrir tónhöfunda að gera sér grein fyrir því hvernig tekjustraumarnir liggja frá streymisveitum. Í því sambandi þarf að gera greinarmun á greiðslu fyrir annars vegar útgáfuréttindi (sem er greiðsla fyrir notkun á tilteknu hljóðriti með tilteknum flytjanda oft nefnd masterréttur) og hins vegar á greiðslu fyrir höfundaréttinn (fyrir notkun á laginu sjálfu, burtséð frá því hver tók það upp og hver flytur það).
 

Hver annast hina stafrænu dreifingu?

Eigandi útgáfuréttarins er sá eini sem getur heimilað stafræna dreifingu verksins. Stundum kemur upp sú spurning hver sé eigandi útgáfuréttarins. Það getur verið sérstakt útgáfufélag, höfundurinn, flytjandinn eða hljómsveitin. Spurningin er í raun hver greiðir upptökukostnaðinn? Hér á Íslandi er um 80% allra útgáfa eigin útgáfa viðkomandi tónlistarmanna sem er óvenjuhátt hlutfall. Það þýðir að viðkomandi tónlistarmaður fær greitt fyrir sama streymið annars vegar sem höfundur og hins vegar sem útgefandi.

Það er síðan útgáfusamningurinn á milli útgefandans og flytjenda sem sker úr um hvað útgefandinn fær stóran hluta teknanna af streyminu og hversu mikið flytjendur fá. Venjulega er gerður útgáfusamningur við aðalflytjanda eða aðalflytjendur ef um er að ræða hljómsveit, en aðrir flytjendur þ.e.a.s. svokallaðir aukaflytjendur fá greitt fyrir þátttöku í upptökum með eingreiðslu.

Ef hljómsveit gefur út verkið saman eða sem ein heild þarf hún sem útgefandi að gera útgáfusamning við meðlimina sem flytjendur, þannig að það liggi fyrir skýrt hvað hver meðlimur fær greitt fyrir streymið t.d. í þeim tilvikum sem að hann hættir í hljómsveitinni.
 

Hlutverk miðlara (e. aggregators)

Flestar streymisveitur taka ekki við verkum beint frá útgefendum nema um sé að ræða þeim mun stærri útgefanda á heimsvísu. Gera streymisveiturnar það að skilyrði að útgefendur noti svokallaða miðlara (e. aggregators) eða milliliði til að koma verkum til þeirra. Þessir milliliðir taka síðan annaðhvort tiltekna fjárhæð (eingreiðslu) fyrir hvert upphlaðið verk og svo endurnýjunargjöld eða tiltekið hlutfall tekna af streyminu. Fyrir höfundaréttinn fá höfundar hins vegar greitt frá streymisveitum í gegnum höfundaréttarsamtök eins og STEF.

Einn íslenskur miðlari er starfandi, en útgefandinn Alda Music tekur einnig að sér að dreifa rafrænt efni annarra. Aðrir miðlarar eru t.d. Tune Core, CD Baby, Phonofile, DistroKid, Reverbnation,Mondotunes, Ditto og The Orchard svo einhverjir séu nefndir.

Á sama hátt bjóða þeir mjög mismunandi þjónustu hvað varðar markaðssetningu, gildistíma samnings og svo er hugsanlega misjafnt hvaða streymisveitur þeir setja efni inn á. Til dæmis má nefna að Tune Core býður mjög lítla þjónustu annað en að koma efninu inn á tónlistarveitur og tekur fyrir það fast árgjald. Phonofile býður meiri þjónustu og tekur 20% á tekjum. The Orchard velur sér hins vegar samstarfsaðila sem geta verið útgáfuaðilar eða tónlistarmenn og sinnir fyrir þá um leið markaðssetningu á því efni sem það dreifir. Mjög mikið af efni er að finna á netinu um hvernig er best að finna rétta miðlarann sem gott er að skoða því það getur verið erfitt og kostnaðarsamt að skipta um miðlara síðar. Tenglar á viðkomandi lög verða oftast óvirkir við slík skipti og teljarar byrja upp á nýtt að telja hversu oft viðkomandi lag hefur verið streymt. Þá er einnig mikilvægt að passa vel upp á að skrifa rétt titla viðkomandi laga og að velja þeim endanlegan titil strax, en mistök í stafsetningu geta verið dýrkeypt.
 

Tekjur af tónlistarveitum

Heildarvelta hins stafræna tónlistarmarkaðar var á árinu 2016 um 630 til 640 milljónir kr. og voru árið 2017 greiðandi áskrifendur að Spotify á Íslandi um 60.000. 60% af tónlistarsölu á Íslandi í dag er nú stafræn.

Tekjur af streymi skiptast oftast á eftirfarandi hátt:

VSK er 11%. STEF fær síðan oftast greitt 12% af tekjum frá hefðbundnum tónlistarveitum. Dreifingaraðilinn eða miðlarinn tekur allt að 20% af hlut útgefanda, sem útgefandinn síðan deilir með flytjendum skv. ákvæðum útgáfusamnings. Á árinu 2017 voru útgefandinn og flytjendur sameiginlega að fá frá 363 – 545 kr. af hverri 1.200 kr. árskrift á Spotify.

Hvað skilar þá ein spilun á Spotify?

Samtals voru höfundar, flytjendur og útgefendur að fá um eina krónu fyrir hverja spilun á íslandi á árinu 2017. Þetta er nokkuð lægra hlutfall ef spilunin á sér stað hjá Spotify erlendis.
 

Rafræn markaðssetning

Hvernig get ég aukið tekjur af streymi t.d. á Spotify?

Þegar streymisveiturnar hófu innreið sína á tónlistarmarkaðinn héldum við að aðgengi að eldri útgáfum sem oft eru ófáanlegar í verslunum myndi stórbatna og um leið myndu tekjur af slíkum verkum aukast. Í ljós kom síðar að einungis fyrri hluti þessarar ályktunar átti við rök að styðjast. Aðgengið sem slíkt jókst en að sama skapi virðast notendur hafa mjög takmarkaðan áhuga á þessum eldri verkum. Auðvitað eru til undantekningar frá þessari reglu t.d. hvað varðar tiltekna geira eins og þungarokk, en að meginstefnu til virðast notendur hafa tiltölulega lítinn áhuga á að gefa sér tíma til að leita að verkum tiltekinna höfunda eða flytjenda. Við vitum að 55% af tónlistinni sem er streymt á Spotify er streymt af lagalistum og að 8-10% verkanna sem í boði eru, eru að fá 90% streymisins. Til viðbótar fara tekjur vegna þeirra verka sem ekki næst að samkeyra með gagnagrunnum höfundaréttarsamtaka og tekjur vegna streymis sem nær ekki lágmarksúthlutun aftur í pottinn sem gerir það að verkum að stærri aðilar fá enn stærri hlutdeild teknanna. Notkunarmunstur neytenda á tónlistarveitum gerir það því að verkum að þeir sem eiga verk sem ná inn á topplista eru að uppskera vel, en aðrir sitja eftir. Ekki má þó gleyma því að hið sama má að mörgu leyti segja um útvarp og sjónvarp þar sem glugginn er lítill og einungis lítill hluti verka sem í boði eru fá spilun hverju sinni. Þessi neysla útvarps, sjónvarps og tónlistarveita er hins vegar mjög ólík hefðbundinni plötusölu sem hefur farið minnkandi með auknu aðgengi í gegnum streymi. Því má ekki gleyma að alveg eins og það skiptir máli fyrir sölutölur hvar plötunni er komið fyrir í versluninni, þá þurfa höfundar, flytjendur og útgefendur að vinna markvisst með tónlistarveitunum. Ekki er hægt að hlaða upp tónlistinni og bíða síðan bara eftir tekjunum. Fyrir utan hefðbundna markaðssetningu er ýmislegt hægt að gera til að hafa áhrif á streymi tónlistarinnar. Helstu tækin eru samspil þessara veita við samfélagsmiðla og miðlun upplýsinga og tengla á tónlistarveitur til aðdáenda tónlistarmannsins. Þá getur tónlistarmaðurinn sjálfur búið til lagalista og deilt þeim með aðdáendum sínum. Tónlistarmenn geta einnig unnið saman að slíkum verkefnum. Á eftirfarandi síðu er hægt að nálgast ýmis góð ráð hvað þetta varðar: http://www.spotifyartists.com/best-practices/

Hér eru nokkur góð ráð frá Maríu Rut Reynisdóttur um hvernig sé best að markaðssetja tónlistina stafrænt, því það að koma laginu á streymisveitur er jú bara byrjunin. Síðan hefst alvöru vinnan við að fá það spilað.

  • Notkun samfélagsmiðla er ekki nægileg ein og sér til að dreifa tónlistinni.

  • Tónlistarmaðurinn verður einnig að hafa sína eigin heimasíðu til að geta stjórnað betur upplýsingaflæði.

  • Póstlistar eru eitt mikilvægasta verkfærið í kistunni. Póstlistann áttu sjálfur og þarft ekki að treysta á þriðja aðila eins og Facebook sem rukkar fyrir auglýsingar.

  • Hægt er að safna netföngum t.d. með því að gefa efni í staðinn.

  • Smától eða "widgets" geta verið hentug – þau hvetja til virkni aðdáenda.
     

YouTube

Í byrjun er rétt að gera sér grein fyrir því að myndefni með tónlist á YouTube felur í sér þrjá mismunandi flokka réttinda.

– Myndefnið
– Lagið
– Upptakan

Ef tónlistarmenn setja sjálfir inn myndefni með tónlist sinni fá þeir eingöngu greitt fyrir myndefnið (ef notuð er þjónusta AdSense). Til þess að fá einnig greitt fyrir upptökuna og lagið verður tónlistin að hafa farið á YouTube í gegnum einhvern sem er hluti af "partnerprógrammi" YouTube. Það eru einungis stærstu útgáfufyrirtækin sem hafa slíkan aðgang sjálf en aðrir nota þá miðlara (e. aggregators).

Þegar tónlistin hefur farið inn á réttan hátt inn á YouTube með öllum upplýsingum um verkið myndast samanburðarskrá sem er keyrði saman með öllu öðru myndefni og ef í ljós kemur að aðrir hafa notað upptökuna og lagið með sínu myndefni fær eigandi upptökunnar einnig greitt fyrir slíka notkun.

Eigandi upptökunnar á að greiða hluta af þeim tekjum sem hann fær á þennan hátt frá YouTube með flytjendum skv. útgáfusamningi á sama hátt og af öðrum streymistekjum. STEF greiðir síðan lagahöfundum sérstaklega samkvæmt samningi STEFs við YouTube.

Ekki er greitt fyrir áhorf sem á sér stað áður en samanburðarskráin verður til og verkið skráð í gegnum miðlara hjá YouTube. Er því mikilvægt að huga að þessum atriðum ÁÐUR en myndefnið er sett á veituna, því mesta áhorfið er jú oftast skömmu eftir að því er hlaðið upp.

bottom of page