top of page
Sheet Music

Samþykktir

1. grein

Nafn félagsins er Félag tónskálda og textahöfunda, skammstafað FTT. 

Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

 

2. grein

Tilgangur félagsins er:

Að standa vörð um réttindi íslenskra tónskálda og textahöfunda.

Að gæta hagsmuna félagsmanna á sviði höfundaréttar.

Að efla samstöðu meðal félagsmanna.

Að stuðla að tíðari flutningi og aukinni útbreiðslu á verkum félagsmanna.

 

3. grein

Félagsmenn geta orðið allir þeir sem samið hafa tónverk og/eða texta við tónverk, hafi verkið verið flutt opinberlega, enda hafi þeir veitt Samtökum tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEFi) umboð sitt.

 

4. grein

Félagar teljast þeir höfundar sem eiga skráð lög og/eða texta hjá viðurkenndum innheimtusamtökum og njóta tekna af flutningi verka sinna.  Félagar sem greitt hafa félagsgjöld eru kjörgengir í nefndir á vegum félagsins og hafa kosningarétt, þar á meðal við stjórnarkjör og breytingar á samþykktum. Félagsgjöld eru dregin af höfundatekjum við uppgjör STEFs í árslok. Nái höfundatekjur ekki lágmarkstekjum skv. 7. grein eru félagsgjöld ekki dregin af og hefur félagi þá ekki réttindi greiðandi félagsmanns.  Félagar sem ekki ná hærra tekjumarki skv. 7. grein greiða hálf félagsgjöld.  Félögum er frjálst að greiða félagsgjöld með millifærslu til að öðlast réttindi greiðandi félaga.  Heiðursfélagar FTT eru undanskildir félagsgjöldum en hafa full réttindi félaga.

 

5. grein

Stjórn félagsins skipa fimm menn og tveir til vara. Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár. Stjórnin er kosin á aðalfundi með leynilegri atkvæðagreiðslu og bundin við fram komnar uppástungur. Formaður og varaformaður skulu kosnir sérstaklega, síðan aðrir varamenn með þeim hætti að sem næst tveir aðalmenn og einn varamaður ganga úr stjórn. Varamenn skulu ævinlega boðaðir á stjórnarfundi. Ennfremur skal kjósa skoðunarmann reikninga félagsins.

 

 

6. grein

Félagsfundir hafa æðsta vald í málefnum félagsins. Félagsfundir skulu haldnir samkvæmt ákvörðun stjórnar félagsins hverju sinni. Krefjist 1/5 félaga þess skriflega að boðað verði til félagsfundar er stjórninni skylt að verða við þeirri kröfu. Stjórn félagsins boðar til félagsfunda með minnst sjö daga fyrirvara.

 

7. grein

Aðalfund félagsins skal halda árlega, eigi síðar en fyrir aðalfund STEFs ár hvert.

Á aðalfundi skal taka fyrir eftirfarandi mál:

Skýrslu stjórnar félagsins fyrir liðið starfsár.

Ársreikning félagsins fyrir liðið almanaksár, ásamt athugasemdum.

Ákvörðun félagsgjalda fyrir næsta almanaksár.

Ákvörðun tekjumarka sem greina á milli almennra félaga og aðalfélaga.

Kosningu félaga í stjórn félagsins.

Ákvörðun lægri og hærri tekjumarka félaga sem greiða hálft og fullt félagsgjald.

Kosningu skoðunarmanns félagsins fyrir næsta starfsár og eins til vara.

Önnur mál.

 

8. grein

Stjórn félagsins fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli félagsfunda. Stjórnin skipar starfsnefndir til þess að vinna að einstökum verkefnum og ræður framkvæmdastjóra og/eða starfsmenn til þess að sinna sérstökum störfum á vegum félagsins.

 

9. grein

Samþykktum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi. Þarf til þess 2/3 greiddra atkvæða á fundinum enda hafi breytingartillögu verið getið í fundarboði.

 

10. grein

Félagið verður því aðeins lagt niður, að tillaga þess efnis verði samþykkt á aðalfundi eftir sömu reglum og frá greinir í 11. grein þessara samþykkta. Sá fundur ráðstafar jafnframt eignum félagsins og gerir aðrar nauðsynlegar ráðstafanir vegna félagsslitanna.

 

Samþykkt á aðalfundi FTT 24. maí 1984.

 

Með breytingum á aðalfundi 26. apríl 1990, aðalfundi 27. apríl 1992, aðalfundi 5. maí 2004 og á aðalfundi 8.maí 2024.

bottom of page