top of page
Sheet Music

Um félagið

FTT, Félag tónskálda og textahöfunda, var stofnað sem óformlegur samráðsvettvangur árið 1981 af höfundum hryntónlistar og textagerðar á Íslandi.

 

Félagið starfaði óformlega fyrstu tvö árin, en frá formlegu stofnári 1983 hefur það víða látið til sín taka og eflt samstöðu meðal höfunda.

 

Í FTT eru nú 450 höfundar og er félagið annað tveggja aðildarfélaga STEFs, Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar. Hitt félagið er Tónskáldafélag Íslands, vettvangur þeirra sem starfa á vettvangi klassískrar tónlistar.

 

Tilgangur FTT er m.a. að standa vörð um rétt íslenskra tónskálda og textahöfunda, að gæta hagsmuna félagsmanna á sviði höfundaréttar, sinna upplýsingaöflun og miðlun þess helsta sem er í gerjun á vettvangi höfundarréttarins innanlands sem utan, að efla samstöðu meðal félagsmanna og að stuðla að tíðari flutningi og aukinni útbreiðslu á verkum félagsmanna. 

 

Í krafti fjöldans hefur FTT getað beitt sér í margskonar baráttumálum fyrir hagsmunum höfunda og það er styrkur félagsins hversu margir og fjölbreyttir höfundar eru félagsmenn.

 

Félagsmenn geta orðið allir þeir, sem samið hafa tónverk og / eða texta við tónverk og fengið verk sín flutt opinberlega, enda hafi þeir veitt STEFi umboð til að innheimta höfundarréttargjöld sín.

 

Félagsmenn FTT eru ýmist almennir félagar eða aðalfélagar. Þeir einir eru aðalfélagar, sem fengist hafa við tónsmíðar og / eða textagerð um minnst þriggja ára skeið og njóta umtalsverðra tekna af flutningi verka sinna.

 

Félagsmenn FTT hafa m.a. rétt til að sækja um styrki í hina ýmsu sjóði sem er ætlað að efla sköpun , útgáfu og útbreiðslu tónlistar sinnar. Hér á heimasíðunni getur að líta lista yfir nokkra sjóði sem veitt hafa styrki til sköpunarverka á sviði tónlistar, textagerðar og margvíslegrar menningarstarfsemi.

 

FTT miðlar upplýsingum til félagsmanna sinna og veitir þeim aðstoð og ráðgjöf. Félagið hefur gefið út nótnabækur með lögum félagsmanna, staðið fyrir námskeiðum og menningarferðum ýmiskonar.  Félagið á í reglulegum samtölum við dagskrárstjóra ljósvakamiðla og fylgist með því að íslensk tónlist fái sanngjarnt vægi í dagskránni.  

bottom of page