top of page
Search
Iceland Sync

Fuglabúrið #6: Biggi Maus og Tómas R Einarsson

19. maí næstkomandi munu tveir afar ólíkir listamenn rugla saman reitum sínum á Café Rósenberg. Þeir Biggi Maus og Tómas R. hafa síðustu vikuna unnið að því að endurútsetja lög sín með þeim Ómari Guðjónssyni gítarleikara og Helga Svavari trommuleikara. Hugmyndin er að skeyta saman ólíkum tónlistarheimum og reyna að finna sameiginlegan flöt. Niðurstaðan virðist ætla að verða nokkuð afslöppuð en tilraunakennd, fljótandi tónlistarupplifun þar sem þeir félagar vinna sig í gegnum höfundarverk hvors annars. Leikin verða lög eftir Maus, Krónu, sólóverki Bigga til helminga við lög Tómasar R. - og ávallt í nýjum búningum.

Þess má til gamans geta að Tómas R. er fyrrum kennari Bigga sem lærði hjá honum tónfræði í FÍH sem táningur - en hefur gleymt flestu síðan þá.

Hús opnar kl.20 og tónleikarnir hefjast stundvíslega kl.21. Miðasala við innganginn. Aðeins 1000 kr. inn.


Birgir Örn Steinarsson

Hefur gengist við nafninu Biggi Maus eftir áralanga veru í rokksveitinni Maus. Með þeirri sveit gaf Biggi út sex plötur. Fyrir tæpum fjórum árum síðan kom svo út hans fyrsta sólóplata en upp á síðkastið hefur Biggi gefið út lög með nýrri rokksveit sinni Krónu. Biggi hefur einnig samið lög og texta fyrir aðra listamenn (Silvía Nótt, Land & Synir ofl.) og unnið sem upptökustjóri fyrir hina og þessa (Kimono, Lokbrá ofl.). Biggi starfaði lengi sem blaðamaður en er í dag heimavinnandi faðir á daginn, rithöfundur í eftirmiðdaginn og virkur plötusnúður á nóttunni.



Tómas R. Einarsson

Tómas er einn ástsælasti djasstónlistarmaður þjóðarinnar og hefur verið afkastamikill í djassútgáfu síðastliðin 25 ár. Síðastliðin ár hefur hann leyft sér að verða undir miklum áhrifum frá kúbverskum djass. Hann hefur verið einn afkastamesti lagasmiður í íslenskri djasstónlist og eru plötur sem innihalda eingöngu, eða að megninu til tónlist hans orðnar hátt í 20 talsins. Hann hefur margsinnis hlotið Íslensku Tónlistarverðlaunin ýmist fyrir hljóðversskífur sínar eða tónleikaupptökur.


Fuglabúrið

Tónleikaröðin Fuglabúrið er skipulöggð í samstarfi FTT og Reykjavík Grapevine þar sem leitast er við að brúa kynslóða- og tónbil milli ólíkra (og mis gamalla) listamanna. Tvennir listamenn koma fram á hverjum tónleikum, helst úr sitt hvorri áttinni í aldri og stíl, og spila hvor sína tónleikana, en ljúka síðan kvöldinu með samspili hverskonar. Fyrstu tónleikarnir voru í maí 2009 með mæðgunum Bryndísi Jakobsdóttur og Ragnhildi Gísladóttur, svo var röðin komin að Megas og Ólöfu Arnalds en í þriðja Búrinu sem haldið var í lok sumars 2009 voru það Bubbi Morthens og Hafdís Huld sem léku listir sínar. Jólafuglabúrið var svo í desember sl. þar sem Gunnar Þórðarson og Svavar Knútur héldu hátíðlega tónleika í Fríkirkjunni í Reykjavík. Andrea Gylfadóttir og Villi Naglbítur leiddu svo saman hesta sína í febrúar sl. með frábærum árangri.

9 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page