A­al˙thlutun STEFs

Tekjum, sem STEF innheimtir fyrir flutning tónverka, að frádregnum rekstrarkostnaði og öðrum kostnaði við starfsemi samtakanna, er úthlutað til tónskálda, textahöfunda og annarra rétthafa einu sinni á ári, í aðalúthlutun, og eru skilagreinar og ávísanir að öllu forfallalausu sendar út hinn 10. desember ár hvert eða næsta virka dag á eftir, ef hinn 10. ber upp á helgi. Hægt er að fá greiðslur lagðar beint inn á bankareikning og þarf þá að tilkynna STEFi um þá ósk og veita upplýsingar um banka- og reikningsnúmer. Þetta má gera t.d. með því að senda netpóst á sigga@stef.is eða með því að hringja í síma 561 6173. Tekjum er ráðstafað með hliðsjón af úthlutunarreglum STEFs.

Ein algengasta spurningin sem STEFi berst varðandi úthlutunina er hve mikið sé greitt fyrir hverja "spilun". Fyrirfram er ekki hægt að segja hversu mikið er greitt fyrir flutning á verki. Það ræðst annars vegar af þeim tekjum sem eru til ráðstöfunar, skv. ársreikningi (pottinum) og hins vegar hversu mikið hefur verið spilað í heildina á árinu, þ.e. hve margir punktar hafa safnast saman hjá öllum höfundum á öllum verkum sem leikin voru á árinu skv. tónlistarskýrslum. Punktafjöldanum er deilt í pottinn og þá sést hve mikið er hægt að greiða fyrir hvern punkt. Þegar greitt er fyrir flutning í desember er verið að greiða fyrir útvarpsspilun á árinu á undan. Í desember 2004 verður greitt fyrir útvarpsspilun á árinu 2003.

Við aðalúthlutun STEFs í desember er ekki aðeins greitt fyrir útvarpsflutning. Á skilagreinum má sjá ýmsa aðra liði s.s. tónleika, kvikmyndir og annað. Þá fer einnig fram s.k. aukaúthlutun til félaga í Tónskáldafélagi Íslands og Félagi tónskálda og textahöfunda fyrir lifandi flutning annan en þann sem er á vegum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en sú úthlutun, konsertúthlutun, er sérstakur liður. Nýmæli er að nú er greitt fyrir sívinsæl verk (e: "evergreens") svo og verk sem flutt eru við kirkjulegar athafnir, svo sem giftingar og jarðarfarir.